Er hægt að treysta á bókstaf?

Flett í GuðiMargt hefur verið rætt í bloggheimum upp á síðkastið um kristna trú og trúfélög. Þar er ótt og títt vitnað til hinnar merku bókar Biblíunnar og sitt sýnist hverjum um trúverðugleika þeirrar heimildar. Er hægt að byggja rök sín á bókstöfum þeim sem sveipaðir eru svo skuggum fortíðar? Er hægt að leggja hreinan trúnað á sundurleitan bókfellsbunka, ritsafn ólíkra manna á ólíkum tímum?

Sagt er að Páll Postuli hafi ritað "af heilögum innblæstri". Þar sé um að ræða að rithönd hans hafi verið stýrð af Guði sjálfum. Það má vera, en hver er fær um að meta að svo sé. Hvernig getum við treyst dógreind og geðheilsu manna sem uppi voru fyrir svo löngu?

Þetta hljómar nú svolítið eins og Páll Postuli hafi jafnvel kannski, hugsanlega, verið undir áhrifum einhverra skynbreytandi lyfja eða efna, óvart eða viljandi. Þetta sannar bara enn frekar að Ritningin er skrifuð af mönnum en ekki Guði. Öll mannanna verk eru ófullkomin í eðli sínu og þar á meðal Ritningin. Það er afskaplega óábyrgt að treysta því blint að um tæran boðskap Guðs sé að ræða. Það er alltaf möguleiki á mistökum, það er bara þannig. Það er alltaf möguleiki á að eitthvað hafi misfarist í þýðingum, endursögn og túlkun fyrir utan það að alltaf er hægt að efast um geðheilbrigði og pólitíska ívilnun ritunarmanna.

RitningarrígurTökum dæmi. Nú ofsóttu Rómverjar kristna menn svo mjög að þeir stunduðu helgiathafnir sýnar í laumi. Margir kristnir misstu vini og ættingja í gin ljóna og fyrir sverðum skylmingarþrælanna. Meðal þessara sömu Rómverja naut samkynhneigð nokkurrar hylli og þótti meira en sjálfsögð meðal fyrirmanna og aðalsins. Er hugsanlegt að frumsöfnuðir kristninnar hafi sett svo mjög út á samkynhneigð því hún var óvinum þeirra töm? Er hugsanlegt að í frumkristni hafi þetta verið gert af pólitískum ástæðum? Er hugsanlegt að um hreina markaðssetningu hafi verið að ræða meðal trúboða á uppgangstímum kristninnar?

Burtséð frá mörgu góðu sem kristnin býður uppá er einfaldlega ekki hægt að kokgleypa textann sem skýran, upphafinn og óumdeilanlegan boðskap Drottins Guðs almáttugs. Það eru alltof margir búnir að vera með puttana í honum. Of mörgum spurningum er og verður ósvarað. Ég lít það alltaf hornauga þegar menn vitna til þessarar ritningar til að koma hinum og þessum skoðunum á framfæri. Ég get ekki annað en efast um heilbrigða rökhugsun slíkra manna.

Við erum að sjá þetta sama gerast ítrekað hjá hinum og þessum söfnuðum. Þeir lyfta einhverjum textabrotum og stökum orðfærum í hæstu hæðir en líta framhjá öðrum köflum í sömu andrá. Afleiðingarnar eru oft hræðilegar. Hver man ekki eftir t.d. Waco í Texas? Sjáið Guðmund í Byrginu. Sá einhver heimildamyndina Jesus Camp á RÚV nýlega?

Ég þigg með þökkum boðskap kristninnar um kærleika og umburðarlyndi manna á millum og læt mér það eitt nægja til þess að kalla mig kristinn. Ég tala við minn Guð í einrúmi og kæri mig kollóttan um hvort samkynhneigðir gifti sig í kirkju eða ekki. Slíkt má vera að sé áhlaup á kristnar helgivenjur og kirkjuhefðir, en þá það. Ég hef ekki trú á að það kollvarpi kristninni. Trú og trúarbrögð hljóta að þróast gegnum aldirnar. Alveg eins og tungumál, vísindi, þekking og flest allt í jarðneskri tilvist okkar.

Ps. Þessi skrif voru innblásin, hvað sem það nú þýðir :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Höfundur opinberunarbókarinn var víst á eyjunni Pathmos, sem þekktust er fyrir sveppi með meskalínívafi og voru menn þar speisaðir upp úr hárinu á sér daginn út og inn.  Gluggi maður í þessa bók, velkist maður ekki í neinum vafa hvað var í kolli þess er skrifaði og það var sko ekki heilagur andi, ef hann er til.

Þar er ekki talað heldur öskrað samhengislaust í óráðsvímu og sennilega var maðurinn líka strappaður upp á rasshárunum í pálmatré líka.

Þessi vitrun birtist mér við lestur þinnar vitrunnar.

Jón Steinar Ragnarsson, 13.11.2007 kl. 19:46

2 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Akkúrat JS. Hvar er gagnrýnin hugsun manna? Hvaða skýringar á þessum hugmyndum manna fyrir mörgum öldum eru sennilegastar?

1. Innblásnar af almáttugum Guði?
2. Afleiðingar eitrunnar úr umhverfinu?
3. Afleiðingar geðveiki?
4. Afleiðingar hræðslu við hið óútskýrða?
5. Afleiðingar pólitísks þrýstings?
6. Afleiðingar markaðssetningar

etc.

Það vantar alla rökhugsun tengdri þessari umræðu hér á blogginu. 

Páll Geir Bjarnason, 13.11.2007 kl. 20:05

3 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Þetta er frábær og kröftug skrif hjá þér. Gott þú gerðir pistil úr þessu Haltu bara áfram að skrifa um þessi mál. Ekki veitir af.  Takk fyrir öll skrifin á minni síðu. Knús á þig

Margrét St Hafsteinsdóttir, 13.11.2007 kl. 20:48

4 identicon

þessi tilgáta með hatrið á rómverjunum er frekar slöpp .

Voru það ekki Gyðingar sem ofsóttu, og aflífuðu Krist ? Kom eitthvað Gyðingahatur inn í ritningarnar í kjölfarið ? 

enok (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 22:07

5 identicon

Einhverra hluta vegna eyddi Maggadóra mínum færslum af sínu bloggi, en þar sem enn er tilvísun á þetta blogg, geta aðdáendur mínir lesið það sem hún eyddi út hér ( vonandi leyfir Palli það ? ) Illa þoldi hún, að ég skyldi hrósa henni fyrir samantektina á "æðislegum" kommentum samkynhneigðra-sinna, en klikkja svo út með því að segja að lokum : En því miður breytir þetta engu um það hvort samkynhneigðir komast til himnaríkis .

 Ekki er það svo,að ÉG hafi ákveðið örlög samkynhneigðra, heldur hefur Guð fyrir löngu sagt hvað verður um svoleiðis fólk . Magga getur strokað mig út eins og henni sýnist, en ákvæðið um örlög samkynhneigðra verður ekki strokað úr ritningunni . ( nema kannski í næstu Biblíuþýðingu )  ? 

 Bendi svo öllum á að kíkja á eftirfarandi link :

http://www.oneby1.org/father_story.html

enok (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 22:44

6 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Þetta er ekki raunveruleg og ígrunduð tilgáta heldur dæmi um hugsanlegar samfélagslegar skýringar á ýmsu í Ritningunni. Að það sé hugsanlegt að annað en guðlegur innblástur liggi að baki. Ég er ekki að segja að svo sé, einungis að það er fjöldinn allur af hugsanlegum skýringum. Það að pikka út eina, og þá í leiðinni eina þá ósennilegustu og yfirnáttúrulegustu, varpar að mínu viti meira ljósi á getuleysi hinna bókstafstrúuðu til að forma andlega heilbrigða niðurstöðu á rökhugsunarferli sitt. Það má vel vera að guðlegur innblástur hafi verið þarna að verki, en ég dreg þá ályktun að aðrar skýringar séu líklegri. Ef eitthvað kvakar eins og önd, labbar eins og önd og lítur út eins og önd er það líklega önd.

Hvað Rómverja og Gyðinga varðar þá held ég að litlum blöðum sé um að fletta að það er talsverður munur á Heimsveldi Rómverja og ítökum Gyðinga á þessum tíma. Ég held að gjörvallt Rómarveldi hafi verið öllu tröllvaxnari andstæðingar en gyðingar sem trúðu á sama guðinn.

Páll Geir Bjarnason, 13.11.2007 kl. 22:47

7 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

enok með litlu e; Þú ert greinilega á því að guð hafi ritað Biblíuna sjálfur. Þar liggur að mínu viti rökvillan.

"heldur hefur Guð fyrir löngu sagt hvað verður um svoleiðis fólk"

Það er eitt rétt í þessari fullyrðingu og það eru orðin "fyrir löngu". Annars vil ég benda þér á að það sem þú vildir líklega segja er;

"heldur er kall sem ég veit ekkert um búinn að segja fyrir löngu að Guð hafi sagt honum hvað verður um svoleiðis fólk" 

Þarna er reginmumur á... 

Páll Geir Bjarnason, 13.11.2007 kl. 22:53

8 identicon

Nýja testamenntið er ekki skrifað af Gyðingum, og þar er ekkert að finna um Gyðingahatur að mig minnir . Ef kristnir hafa hatað rómverja, og viljað ná sér niðri á þeim með því að fordæma kynvillu, hefðu þeir því ekki látið eins gagnvart Gyðingum, í einhverjum textum nýja testamenntinsins ?

Menn geta fundið upp á ótrúlegustu leiðum, til að draga úr alvarleika kynvillu í tilverunni, en því ekki að eyða tímanum frekar í að koma fólki í skilning um að kynvilla er ástand sem hægt er að losna við, án þess að enda í sjálfsmorðshugleiðingum ?

Margar eru heimildirnir í dag, sem sýna að svo sé, en menn vilja ekki trúa þeim . Ótrúleg þvermóðska og barnaskapur í gangi, því miður . Magga ! ekki láta eins og  þú hafir ekki lesið þetta !  

enok (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 23:01

9 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Hvar er alvarleiki "kynvillu" í tilverunni? Ég hef ekki séð þennan alvarleika enn. Það má vera og er líklegt að til sé veikgeðja fólk sem einhvern tíman á ævinni hafði einhverjar óljósar hugmyndir um kynhneigð sína. Það að flöktandi fólk með illa formaðan karakter snúist til og frá eigins kyns þýðir ekki að hægt sé að breyta raunverulegum samkynhneigðum aðila í gagnkynhneigðan. Af og frá. Enn er hér uppi efafaktor. Kannski er þetta hægt, en líklega ekki.

Enn og aftur, dæmið um Rómverja er til að varpa hugmyndafræðilegu ljósi á samtíman sem Biblíuritningar fóru fram á. Þá er ég að tala um pólitískan hugmyndaheim. Kristinni trú af öllum toga stóð ógn af fjölgyðingstrú Rómverja og Rómaveldi var stórt og voldugt. 

Páll Geir Bjarnason, 13.11.2007 kl. 23:14

10 identicon

Alvarleiki kynvillu er ekki til í huga sjálfs kynvillingsins . Kynvillu-athæfi er hættulegt að því leiti, að sálrænir kvillar koma MJÖG oft í kjölfarið . Ofdrykkja - lauslæti - fíkniefni - þunglyndi - óöryggi og ýmislegt fleira má týna til .

Einhversstaðar er ritað : Sannleikurinn mun gera yður frjálsann . Trúi kynvillingar kannski sannleikanum um sína hneigð, einhvern góðann veðurdag, geta þeir orðið gagnkynhneigðir (frjálsir),og því þá líka lausir undann lyginni sem rymur úr öllum almennum fjölmiðlum þessa daganna, um að hneigðin sé kyrfilega föst í þessu fólki .

enok (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 23:47

11 identicon

Mig langar til að spyrja þig "enok" hvort þú hafir lesið alla biblíuna frá upphafi til enda? Og einnig hvort þú trúir öllu sem í biblíunni er skrifað?

Hefur þú gert þér grein fyrir því að samkynhneigt fólk sem þér virðist vera svo mikið í nöp við er fólk eins og þú og ég?Fólk með sínar vonir ,drauma og þrár.Hvað með t.d.manneskjuna sem afgreiddi þig  á kassanum í stórmarkaði síðast,maðurinn sem gerði við bílinn þinn.þjónustufulltrúinn eða gjaldkerinn í bankanum,afgreislumanneskja á bensínstöðinni og svo mætti lengi telja,eitthvað af öllu því fólki sem þú hittir,umgengst eða afgreiðir þig og þjónustar alla daga getur verið samkynhneigð,sérðu einhvern mun?Tókstu eftir því hver af þeim sem þú hafðir samskipti við útí þjóðfélaginu í dag er samkynhneigður og hver ekki?

Júlíus Már Baldursson (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 01:35

12 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Sæll enok með litlu e-i.

"Alvarleiki kynvillu er ekki til í huga sjálfs kynvillingsins . Kynvillu-athæfi er hættulegt að því leiti, að sálrænir kvillar koma MJÖG oft í kjölfarið . Ofdrykkja - lauslæti - fíkniefni - þunglyndi - óöryggi og ýmislegt fleira má týna til ."

Hmmm. Er hugsanlegt að fordómar og aðdróttanir í garð kynhneigðarinnar valdi þessum sálrænu kvillum? Óttinn við öskur og skammir umburðarlítilla siðapostula hreki hinn samkynhneigða til drykkju? Úthrópanir háværra sjálfskipaðra siðgæðisvarða helli myrkri þunglyndis yfir þetta ágæta fólk? Bara pæling. Hvort er líklegra, að samkynhneigðir geti hrakist í þessar ógöngur vegna fordóma samfélagsins eða af því það er "svo mikil syyyyyynd"??? Veistu, ég kaupi fyrri skýringuna á hverjum degi.

Þetta hljómar svolítið hjá þér eins og þú álítir samkynhneigð einhvers konar geðsjúkdóm. Alla vega er "áhættufaktorinn" þannig. Segðu mér, fyrst geðsjúkir geta orðið fyrir þessum sömu einkennum, er geðsýki þá ekki synd? En alkóhólismi? Er hann kannski synd líka?

" Trúi kynvillingar kannski sannleikanum um sína hneigð, einhvern góðann veðurdag, geta þeir orðið gagnkynhneigðir (frjálsir),og því þá líka lausir undann lyginni sem rymur úr öllum almennum fjölmiðlum þessa daganna, um að hneigðin sé kyrfilega föst í þessu fólki ."

Ég er nú svo tregur að ég þurfti að lesa þetta nokkrum sinnum. Ég held þú sért að segja það að ef samkynhneigður aðili átti sig á villu síns vegar geti hann orðið gagnkynhneigður. Ja, ef svo er, þá hefur hann líklega ekki raunverulega verið samkynhneigður, er það? Ég held að í öllum þeim tilfellum þar sem bókstafstrúarhópar hafa "breytt samkynhneigðum í gagnkynhneigða" sé þar um að ræða athöfn sem hefur allt með tilfinningalegt rugl í höfði manna að gera en ekkert með kynhneigð. Allt með hræðsluáróður og ofbeldi að gera en ekkert með eðlilegt tilfinningalíf. Ég dreg þessar ályktanir á sama máta og áður. Ég legg fyrir mig staðreyndirnar og skoða þær með gagnrýnu tilliti. Hvort er nú líklegra, að viðfangsefnið sé veikt á tilfinningasviðinu, eða Guð almáttugur frelsaði það? Að "homminn" eigi við einhvers konar persónuleikaröskun að stríða, eða sé raunverulega samkynhneigður. Veistu enok með litlu e-i, ég kaupi bara sennilegustu skýringarnar hverju sinni. Það þarf ekki að vera eitthvað dularfullt við þetta. Það þarf ekkert kukl og dómsdagsspár. Það þarf engan innblástu heilags anda. Það þarf bara mannlegt eðli, ófullkomið og víðfemt sem það er.

Nú, fyrst þú vilt endilega nota orð eins og "kynvillingar" þá ætla ég að leyfa mér að úthúða þig sem rökvilling. Þið rökvillingar þjáist af krónískri rörsýni. Rökvillingar eru þannig að þeir geta ekki hugsað sjálfstætt. Þeim finnst best að taka upp gamlar hugmyndir og bíta þær fast í sig, sama hversu ósennilegar þær eru. Þegar rökvillingi er bent á hversu absúrd fullyrðingar þeirra eru, geta þeir ekki höndlað það í sínu skýrt afmarkaða óumburðarlynda hjarta. Hjá rökvillingum vantar hin eðlilegu tengsl milli hjarta og heila. Annað hvort tekur alveg stjórnina, því rökvillingurinn getur ekki notað bæði samtímis. Annað hvort er um ofurkærleik að ráða sem veður áfram í fullkomnu tillitsleysi til aðstæðna, eða að þessar fyrirfram forrítuðu skoðanir í heila rökvillingsins taka stjórnina og flæða út um vit hans þvert á almenna skynsemi og rök samferðarmanna hans.

Guð forði rökvillingnum að skipta um skoðun, enda er honum það ófært. Rökvillingnum líður bezt þegar háværir sjálfskipaðir trúarleiðtogar messa yfir honum bókstafinn sem hann þekkir svo vel, því allt annað tal vekur ótta hjá rökvillingnum. Það er helsta fró rökvillingsins að greiða þessum íturvöxnu sjálfskipuðu leiðtogum tíund sína enda óttinn við boð þeirra um vist í helvíti skynseminni yfirsterkari. Skynsemin er vanrækt mest af öllu, allt vísindalegt hjal er enda of tyrfið fyrir rökvillinginn. "Þróunarkenningin er skáldsaga" segir rökvillingurinn með þjóst. "Guð skapaði heiminn á 7 dögum og hana nú. Það er hinn heilagi sannleikur"

Heilagur sannleikur, jahérna. Stundum lít ég á dagatalið bara til að fullvissa mig um að ég sé staddur á réttu ári. Enda er mér meðfædd heilbrigð skynsemi sem gerir mér fært um að trúa og efast um hluti. Það byggi ég á eigin athugunum á eins víðum grundvelli og ég get.

...en hvað veit ég, kannski rökvillingurinn enok með litlu e-i hafi rétt fyrir sér. Ég útiloka það ekki en finnst líkurnar hverfandi.

Páll Geir Bjarnason, 14.11.2007 kl. 04:06

13 identicon

Rökvillingur ????? tjah hérna, er það viðurnefnið sem maður fær fyrir það að skilja ritninguna rétt ?

Jæja, ritningin sannar sig sig sjálf þessa daganna ( rannsóknir á handritum / nýjir fornleifafundir og f.l )

Rökvillingar eru í mínum huga, eru þeir sem villast frá rökunum . (eins og þú og allir kynvillusinnar ) Svo er ekkert hægt að nota það sem skammaryrði þótt menn taki bókina bókstaflega . Þeir sem taka bókina alvarlega eru skynsamir einstaklingar sem sjá hversu miklu máli það skiftir að hlýða þeim Guði sem hefur lofað þeim eilífu lífi . Þeir sem ætla bara að trúa því sem hentar best, eru "trúvillingar" því þeir eru að villast frá trúnni .

enok (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 19:51

14 identicon

Elsku enok bróðir í kristi, við skulum fagna saman á efsta degi þegar kynvillingarnir brenna til eilífðar en við skálum saman við gnægtaborð drottins enda útvaldir umfram hommana sem okkur er nauðsyn að hata.  Mundu enok bróðir að bugast ekki undan árásum trúvillinganna því þú ert útvalinn betri maður en þetta pakk sem mun allt brenna í helvíti.  enok, við erum flottastir og bestir, við erum miklu betri en allir þessir trúvillingar, við erum guðsbörn en hinir eru pakk enok og haltu áfram að berjast baráttu okkar sem eru fullkomin sköpunarverk.

enok bróðir það er varla orðum eyðandi á þetta fólk hér því það fuðrar hvort eð er upp í helvíti en reyndu samt að halda áfram að fá með þér sálir og koma þeim í trú um sannleikann svo þær verði fullkomin verk guðs eins og við

Abraham (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 20:32

15 identicon

Ekki ætla ég að setja mig í sama flokk og þessi Abraham fyrir ofann .

Ekki mun ég hafa neina ánægju af því á efsta degi að horfa á samkynhneigða brenna í vítislogum . Fjarri fer því . 'eg mun frekar horfa til þeirra með tárin í augunum, og segja : Af hverju trúðu þeir okkur ekki, þegar við reyndum að vara þá við þessu .

Jæja, en þar sem ég er rökvillingur og ofsatrúar bókstafsmaður í sértrúarsöfnuði, mun enginn trúa þessari umhyggju minni .

enok (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 22:41

16 identicon

Ef ég á að elska Guð minn af öllu hjarta mínu og sálu, geri ég það með því að hlýða og trúa orði hans ( ritningunni ) 

Sá sem vill bara túlka ritninguna eftir ástandi samtímans, og snúa út úr henni og kenna það öðrum, elskar ekki náungann . 

Sá sem elskar náungann og vill forða sálu hans frá glötun, kennir honum að orðs Guðs sé sannleikur, en ekki umbreytanleg heimild .

Hvar eru rökvillurnar í þessu Páll G   ? 

enok (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 23:38

17 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Ok enok með litlu e-i.

Fyrst af öllu þá láðist þér að svara spurningu minni hér að ofan, en hún fer hér á eftir;

"Alvarleiki kynvillu er ekki til í huga sjálfs kynvillingsins . Kynvillu-athæfi er hættulegt að því leiti, að sálrænir kvillar koma MJÖG oft í kjölfarið . Ofdrykkja - lauslæti - fíkniefni - þunglyndi - óöryggi og ýmislegt fleira má týna til ."

Hmmm. Er hugsanlegt að fordómar og aðdróttanir í garð kynhneigðarinnar valdi þessum sálrænu kvillum? Óttinn við öskur og skammir umburðarlítilla siðapostula hreki hinn samkynhneigða til drykkju? Úthrópanir háværra sjálfskipaðra siðgæðisvarða helli myrkri þunglyndis yfir þetta ágæta fólk? Bara pæling. Hvort er líklegra, að samkynhneigðir geti hrakist í þessar ógöngur vegna fordóma samfélagsins eða af því það er "svo mikil syyyyyynd"??? Veistu, ég kaupi fyrri skýringuna á hverjum degi.

"Sá sem vill bara túlka ritninguna eftir ástandi samtímans, og snúa út úr henni og kenna það öðrum, elskar ekki náungann ."

Ég er nú bara svo takmarkaður í jarðneskri tilvist minni að ég get ekki túlkað ritninguna eftir "ástandinu" á ritunartíma hennar. Með rökhyggju minni ákvarða ég að slíkt sé hverjum einasta núlifandi manni ómögulegt nema hann búi yfir tímavél. Með þessari sömu rökhugsun áætla ég að enginn, og þar á meðal þú, eigir eina slíka. Til þess að þekkja hughrif og hugmyndaheim þeirra manna sem skrollurnar rituðu þarf ég að hafa upplifað hann. Allt annað er ekkert nema tilraunir til að setja sig í spor þeirra. Þær tilraunir sem geta aldrei verið annað en ágiskanir. Við getum ekki annað en túlkað textann. Þar er engin túlkun annarri réttari, en þær geta verið misgáfulegar allt eftir því hvernig menn vinna úr rökum þess samtíma sem túlkandinn er uppi á. Mér finnast þínar túlkanir einfaldar og úr takt við þinn samtíma. Ergo, rökvillingur.

"Ef ég á að elska Guð minn af öllu hjarta mínu og sálu, geri ég það með því að hlýða og trúa orði hans ( ritningunni )"

"Sá sem elskar náungann og vill forða sálu hans frá glötun, kennir honum að orðs Guðs sé sannleikur, en ekki umbreytanleg heimild."

enok minn með litla e-ið. Þarna kemur enn einu sinni fram rökvillan sem ég byggi alla mína gagnrýni á. Ég hef mína trú og treysti á minn Guð. Ég treysti hins vegar ekki milligöngumönnunum. Mönnunum sem fyrir öllum þessum öldum skelltu rithönd sinni á bókfell og sögðu það orð Guðs. Það er því ekki að "hlýða og trúa orði hans", heldur orðum óskilgreindra manna sem ég hef enga hugmynd um hvort hafi verið í andlegu jafnvægi, drukknir eða hreinlega veikir á geði. Þetta byggi ég á þeim rökum að mennirnir eru ófullkomnir. Túlkun mína byggi ég líka á þeirri vitneskju minni að rökfest þekking okkar um eðli ýmissa hluta er miklum mun meiri núna en fyrir 1900 árum. 

Þetta er ástæða þess, enok vinur,  að ég byggi alla mína trú á Guði á aðeins þremur orðum. "Guð er kærleikur". Þessi orð nægja mér og mínum Guði, og saman göngum við glaðir í hjarta gegnum mína mjög svo takmörkuðu tilvist í óravíddum alheimsins.

En hvað veit ég? Ég er bara maður og eðli mitt er að efast. Kannski hefur enok með litla e-ið 100% rétt fyrir sér. En ég leyfi mér að efast og þann efa byggi ég á heibrigðri rökhugsun.

Ps. Þetta eru ágætis orð hjá þér Ólafur Skorrdal. En sama hversu ólíklegt það er, þá er alltaf til staðar þessi óendanlega litli möguleiki á að enok hafi rétt fyrir sér.

Páll Geir Bjarnason, 15.11.2007 kl. 05:29

18 identicon

það er ekki hægt að byggja trúarlegt líf eingöngu á því að segja : Guð er kærleikur .

það verður ekkert siðferði og líkamlegt heilbrigði, ef boð og bönn eru látin róa .

enok (IP-tala skráð) 15.11.2007 kl. 20:55

19 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

enok

"Alvarleiki kynvillu er ekki til í huga sjálfs kynvillingsins . Kynvillu-athæfi er hættulegt að því leiti, að sálrænir kvillar koma MJÖG oft í kjölfarið . Ofdrykkja - lauslæti - fíkniefni - þunglyndi - óöryggi og ýmislegt fleira má týna til ."

Hmmm. Er hugsanlegt að fordómar og aðdróttanir í garð kynhneigðarinnar valdi þessum sálrænu kvillum? Óttinn við öskur og skammir umburðarlítilla siðapostula hreki hinn samkynhneigða til drykkju? Úthrópanir háværra sjálfskipaðra siðgæðisvarða helli myrkri þunglyndis yfir þetta ágæta fólk? Bara pæling. Hvort er líklegra, að samkynhneigðir geti hrakist í þessar ógöngur vegna fordóma samfélagsins eða af því það er "svo mikil syyyyyynd"???

Ég er einungis að spyrja hvort þetta sé ekki möguleiki??? Já eða nei virkar fínt. 

Páll Geir Bjarnason, 15.11.2007 kl. 23:03

20 identicon

Þegar einstaklingur uppgötvar að kynhneigð hans er ekki sú sem hún ætti að vera, kemur oft upp óöryggi og minnimáttakennd . Þegar smá árásum úr samfélaginu er bætt við, byrjar oftast drykkjan . Árásirnar einar og sér, eru ekki endilega aðalorsökin .

Sem betur fer er minna um svona árásir í  dag ,vegna umburðarlyndis nútímasamfélagsins, en kirkjan er enn eftir sem "andstæðingur". En ekki fara kirkjunnar menn að ganga í skrokk á samkynhneigðum, svo því ætti þetta ofsóknar tal gegn henni að minnka á næstunni ( ? ) Raunverulegu ofsóknirnar í þessu sambandi, eru aðferðir samkynhneigðra til að komast inní kirkjurnar og fá blessun . Skammirnar og úthýðingarnar sem prestarnir fá, eru þvílíkar að manni blöskrar meir og meir .

Það að ásaka kirkjunnar menn um kærleiksleysi, skilningsleysi, fordóma, ofsóknir, þröngsýni, afturhaldsemi, bókstafstrú, ofsatrú, telst til alvarlega ofsókna á hendur kirkjunnar mönnum . Spurning er hvenær kirkjunar menn fara að kæra þessar yfirgengilegu ofsóknir samkynhneigðra ?

Og þú þarna Páll með stóru P, ertu búinn að lesa það sem var á linknum hér fyrir neðann ? Já eða nei ?

 

http://www.oneby1.org/father_story.html

enok (IP-tala skráð) 15.11.2007 kl. 23:55

21 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Já enok, ég las þessa sögu. Sannar hún einhverjar staðreyndir um samkynhneigð?
Ég las þarna sögu um ungan mann sem þrátt fyrir kristilegt uppeldi og varúðarorð gegn syndinni er samkynhneygður. Hann er niðurbrotinn af fordómum samfélags síns og fjölskyldu sem reynir veikum mætti að þóknast forrituðum kennisetningum um "rétt" og "rangt". En hann er samkynhneygður og gengur því ekkert sérstaklega vel að fóta sig eftir brengluðum siðareglum samfélagsins. Hefur nokkrum sinnum "fallið í freistni" eins og hann segir. Það að þessi bandaríski dáti, faðirinn, tali um ást og kærleika í garð sonar síns á kristilegri vefsíðu þýðir ekki að hann hafi ekki alist upp við formælingar og niðrandi tal um samkynhneigð. Ég efast um að föður hans hafi verið tíðrætt um ást sína í garð samkynhneigðra við kvöldverðarborðið meðan hann ólst upp. Það hefur hingað til ekki verið siður bandarískra hermanna. Þessi litla saga sýnir að mínu viti vonlausa baráttu illa upplýstar bókstafstrúarfjölskyldu gegn sjaldgæfari en eðlilegri kynhneigð eins meðlimar hennar.

Mig langar að spyrja þig enok m.l.e-i. Hver gefur þér rétt til að segja mér að ég geti ekki byggt mitt trúarlega líf á kærleika? Hvaða rétt hefur þú til að efast um trúarlega sannfæringu mína? Ég efast ekki um þína. Finnst hún bara byggð á rökleysu. Mundu, að ég hef alltaf sagt að hugsanlega hafir þú 100% rétt fyrir þér. Heilbrigð rökhugsun segir mér hins vegar að það sé óendanlega ólíklegt.

"Þegar einstaklingur uppgötvar að kynhneigð hans er ekki sú sem hún ætti að vera, kemur oft upp óöryggi og minnimáttakennd . Þegar smá árásum úr samfélaginu er bætt við, byrjar oftast drykkjan . Árásirnar einar og sér, eru ekki endilega aðalorsökin ."

Af hverju heldur viðkomandi að kynhneigð hans sé ekki eins og hún ætti að vera? Er hugsanlegt að það sé vegna þess sem þú svo mínimaliskt kallar "smá" árásir úr samfélaginu? Er það hugsanlega vegna fordóma og skammaryrða? Þú hefur í raun svarað fyrri spurningu minni að mörgu leyti. "Þegar smá árásum úr samfélaginu er bætt við, byrjar oftast drykkjan" Þú sér s.s. að það er hugsanlega um aðrar ástæður að ræða en það eitt að viðkomandi sé "syndugur".

Minni aftur á að ég útiloka ekkert, byggi bara skoðanir mínar og viðhorf á þeim upplýsingum sem ég hef milli handana. Það er gott að vera gagnrýninn í hugsun og ég nýti mér oft speki Sókratesar þegar hann sagði að hann vissi það eitt að hann vissi ekki neitt. Hvað vitum við enok, lítilsmegnugar mannverur í óravíddum alheimsins?

Páll Geir Bjarnason, 16.11.2007 kl. 03:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband