Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Er hægt að treysta á bókstaf?

Flett í GuðiMargt hefur verið rætt í bloggheimum upp á síðkastið um kristna trú og trúfélög. Þar er ótt og títt vitnað til hinnar merku bókar Biblíunnar og sitt sýnist hverjum um trúverðugleika þeirrar heimildar. Er hægt að byggja rök sín á bókstöfum þeim sem sveipaðir eru svo skuggum fortíðar? Er hægt að leggja hreinan trúnað á sundurleitan bókfellsbunka, ritsafn ólíkra manna á ólíkum tímum?

Sagt er að Páll Postuli hafi ritað "af heilögum innblæstri". Þar sé um að ræða að rithönd hans hafi verið stýrð af Guði sjálfum. Það má vera, en hver er fær um að meta að svo sé. Hvernig getum við treyst dógreind og geðheilsu manna sem uppi voru fyrir svo löngu?

Þetta hljómar nú svolítið eins og Páll Postuli hafi jafnvel kannski, hugsanlega, verið undir áhrifum einhverra skynbreytandi lyfja eða efna, óvart eða viljandi. Þetta sannar bara enn frekar að Ritningin er skrifuð af mönnum en ekki Guði. Öll mannanna verk eru ófullkomin í eðli sínu og þar á meðal Ritningin. Það er afskaplega óábyrgt að treysta því blint að um tæran boðskap Guðs sé að ræða. Það er alltaf möguleiki á mistökum, það er bara þannig. Það er alltaf möguleiki á að eitthvað hafi misfarist í þýðingum, endursögn og túlkun fyrir utan það að alltaf er hægt að efast um geðheilbrigði og pólitíska ívilnun ritunarmanna.

RitningarrígurTökum dæmi. Nú ofsóttu Rómverjar kristna menn svo mjög að þeir stunduðu helgiathafnir sýnar í laumi. Margir kristnir misstu vini og ættingja í gin ljóna og fyrir sverðum skylmingarþrælanna. Meðal þessara sömu Rómverja naut samkynhneigð nokkurrar hylli og þótti meira en sjálfsögð meðal fyrirmanna og aðalsins. Er hugsanlegt að frumsöfnuðir kristninnar hafi sett svo mjög út á samkynhneigð því hún var óvinum þeirra töm? Er hugsanlegt að í frumkristni hafi þetta verið gert af pólitískum ástæðum? Er hugsanlegt að um hreina markaðssetningu hafi verið að ræða meðal trúboða á uppgangstímum kristninnar?

Burtséð frá mörgu góðu sem kristnin býður uppá er einfaldlega ekki hægt að kokgleypa textann sem skýran, upphafinn og óumdeilanlegan boðskap Drottins Guðs almáttugs. Það eru alltof margir búnir að vera með puttana í honum. Of mörgum spurningum er og verður ósvarað. Ég lít það alltaf hornauga þegar menn vitna til þessarar ritningar til að koma hinum og þessum skoðunum á framfæri. Ég get ekki annað en efast um heilbrigða rökhugsun slíkra manna.

Við erum að sjá þetta sama gerast ítrekað hjá hinum og þessum söfnuðum. Þeir lyfta einhverjum textabrotum og stökum orðfærum í hæstu hæðir en líta framhjá öðrum köflum í sömu andrá. Afleiðingarnar eru oft hræðilegar. Hver man ekki eftir t.d. Waco í Texas? Sjáið Guðmund í Byrginu. Sá einhver heimildamyndina Jesus Camp á RÚV nýlega?

Ég þigg með þökkum boðskap kristninnar um kærleika og umburðarlyndi manna á millum og læt mér það eitt nægja til þess að kalla mig kristinn. Ég tala við minn Guð í einrúmi og kæri mig kollóttan um hvort samkynhneigðir gifti sig í kirkju eða ekki. Slíkt má vera að sé áhlaup á kristnar helgivenjur og kirkjuhefðir, en þá það. Ég hef ekki trú á að það kollvarpi kristninni. Trú og trúarbrögð hljóta að þróast gegnum aldirnar. Alveg eins og tungumál, vísindi, þekking og flest allt í jarðneskri tilvist okkar.

Ps. Þessi skrif voru innblásin, hvað sem það nú þýðir :)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband