Frá seinni hluta síðasta árs hefur mikið verið rætt um hvort leyfa eigi að selja áfengi undir 22% að styrkleika í stórmörkuðum, en þó aðeins til kl. 20.00. Sitt sýnist hverjum og eðlilega eru skiptar skoðanir varðandi málefni sem þetta. Fyrir mörgum er þetta mikið tilfinningamál og virðist sem þær tilfinningar beri heildarskilning á málefninu yfirliði. Andstæðingar frumvarpsins sýna fram á rannsóknir sem sýna að neysla muni aukast og þjóðfélagslegur vandi einnig í kjölfarið. Í málflutningi fylgismanna er mikið tönglast á frelsi einstaklingsins til að kaupa áfengi nánast hvar sem er og þá gríðarlegu hagræðingu sem í því felst fyrir neytendur að geta kippt með sér víni um leið og keypt er í matinn. Það má vel vera að einhverjar mínútur sparist við þetta en ekki mikið meira þar sem Vínbúðir eru undantekningarlítið í næsta nágrenni, eða sama húsi, og stórmarkaðirnir. Það er hins vegar önnur rök fylgismanna frumvarpsins sem er tilefni þessarar færslu. Þar er kveðið á um að þeir fáu sem ekki höndli áfengi og misnoti það eigi ekki rétt á að halda meirihlutanum í helgreipum "frelsissviptingar". En hver er skilningur meðaljónsins á því hvað sé misnotkun á áfengi? Hvað er það að höndla ekki áfengi? Af orðum margra að dæma virðast þetta vera þeir sem rúlla ofurölvi um stræti borgarinnar og flestir kalla róna eða götufólk. Margir hafa þó aðeins víðari skilning á þessu og telja þetta þá sem drekka um hverja helgi og þá yfirleitt sjálfum sér og öðrum til ama, eða verða áberandi ölvaðir reglulega í miðri viku. En er þetta svona einfalt? Er hugsanlegt að vanþekking almennings á áfengisvanda og hvað sé áhættusöm áfengisneysla slái ryki í augu fólks? Mér finnst mikilvægt að fólk átti sig aðeins á þessum grunnþáttum áður en ákvörðun er tekin varðandi fyrrnefnt frumvarp.
Landlæknisembættið birti á vef sínum í síðasta mánuði nýjar klínískar leiðbeiningar um greiningu og meðferð áfengisvanda í heilsugæslu. Þar eru skýrar leiðbeiningar ætlaðar til notkunar í heilsugæslu og bráðamóttöku sjúkrahúsa til að meta áfengisvanda þeirra sem þangað leita. Þar segir:
"Misnotkun áfengis veldur gífurlegum heilsufarslegum skaða. Alþjóðaheilbrigðis¬málastofnunin (WHO) hefur áætlað að yfir 9% af ótímabærri fötlun eða dauða í heiminum megi rekja beint til áfengis (aðeins reykingar og hækkaður blóðþrýstingur valda meiri skaða). Áfengismisnotkun veldur ekki einungis skaða þeim sem teljast áfengissjúkir heldur dreifist vandinn á miklu stærri hóp áfengisneytenda, aðstandenda og almennings. Þannig veldur áfengi hlutfallslega meiri skaða hjá ungu fólki, aðallega vegna slysa og sjálfsskaða, en þeim eldri. Rétt eins og á öðrum Vesturlöndum er áfengi aðalvímuefni Íslendinga og neysla þess hefur aukist stöðugt á síðustu árum. "
Ég vil hvetja fólk til að kynna sér hvernig unnið er við slíkar greiningar og hvar mörk eðlilegrar og skaðlegrar áfengisdrykkju liggja. Það er mál sem kemur okkur flestum við. Með því að smella á þessa setningu komist þið á síðu Landlæknisembættisins.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 03:44 | Facebook
Athugasemdir
Elsku vinur, ég verð að tjá mig um þetta mál (og líka pínu að sýna að ég er að fygjast með þínum hjartans málum).
Eitt sinn fannst mér gróflega brotið á mínum rétt" að ég gæti ekki keypt rauðvín með sunnudagssteikinni í Hagkaup og þvílíka einokun sem ríkið er, að leyfa ekki verslunnarmönnum að selja áfengi. En síðan þá hefur margt vatn runnið til sjávar og mér tekist að draga aðeins hausinn útúr rassgatinu á sjálfri mér
Í dag er ég ekkert hlynnt því að þessi breyting skuli vera gerð og það er ekki vegna þess að ég hef snúið baki við sukklíferninu því einsog þú veist mæta vel Páll Geir minn að ég á það til að fá mér í glas með góðum mat
Þegar ég settist niður og fór að spá í hlutunum þá truflar það mig ekkert að stoppa í ríkinu til að pikka upp vín því einsog þú bendir á þá munar það oftast mínútum. Það sem ég horfi aðallega á er að EF áfengi væri selt í matvöruverslunum erum við búin að auka aðgengi barna og unglinga að þessum vörum og það er ekki vegna þess að áfengi væri til staðar í hillum matvöruverslana heldur horfi ég á það að aðallega eru það börn og unglingar sem sinna hinum ýmsu stöðum innan matvöruverslanna.
Sjálf var ég að vinna í Hagkaup meira og minna frá 15 -18 ára og þó ekkert stöðvaði mig í að verða mér útum áfengi á þeim tíma hugsa ég með hryllings til þess ef ég hefði unnið í búð sem seldi áfengi
Ef þessar breytingar ættu sér stað og ég ætti ungling þá mundi ég ekki leyfa mínu barni að vinna í matvöruverslunum sem seldi áfengi (ef börnum og unglingum yrði nú ekki meinað að vinna í slíkum verslunum) og það fylgir því einhver ákveðin sorg að standa frammi fyrir því að þurfa að banna barni að vinna og þá sértstaklega við eitthvað sem langflestir íslendingar vinna við einhverntíman á ævinni og þá sérstaklega á yngri árum.
Ég get heldur ekki séð að það sem hagkvæman kost fyrir verslunnareigendur að þurfa að hafa eftirlit með þessum part af versluninni. Þeir væru eiginlega að opna ríki inní versluninni sem þyrfti talsvert meira aðhald og eftirlit en nokkurntíman gamla góða ríkið.
Ég í dag lít svo á að kostir núverandi kerfis á áfengissölu eru talsvert fleiri en kostir þess að gefa sölu frjálsa. Og þegar upp er staðið treysti ég ekki matvöruverslunum til að vera nógu ábyrg í þessum málum. Svo sé ég líka fyrir mér starfsmenn í 10-11 á barónstíg reyna að neita æstum íslendingum um áfengi um há nótt á þeim forendum að kl. er meira en 20:00..... yeah right.....
En nú er ég búin að skrifa miklu meira en ég ætlaði mér í byrjun
Farin að læra
Vertu í sambandi elsku vinur, við hjónaleysin söknum ykkar hjónakornanna
Sleepless, 19.1.2008 kl. 13:16
Takk fyrir þau orð vinan, alltaf gaman að heyra frá þér. Það er nú ýmislegt fleira sérstaklega af pólitískum toga sem mælir gegn þessu að mínu mati.
En nú er ég farinn að leggja mig, var á næturvakt í alla nótt og búinn að vaka í sólarhring...eins og í gamla daga
Páll Geir Bjarnason, 19.1.2008 kl. 14:15
Það er ekki nóg með að alkahólið leysi upp heilan á manni þá leysir það upp heilu og hálfu fjölskyldunar.
Brynjar Jóhannsson, 21.1.2008 kl. 23:46
...svo leysir alkóholið upp lím sem hefur setið eftir á veggjum:-). Alkóhól leysir ýmsan vanda, og allt sem leysir vanda, skapar vanda.
Skáholt, 31.1.2008 kl. 17:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.